Barnafjölskyldur fái meiri tíma til samveru. Fæðingarorlofsgreiðslur og barnabætur hækki til lágtekjufjölskyldna
Búum betur að börnum, kennurum og starfsfólki í skólum
Skólaganga á að vera gjaldfrjáls
Íbúðarhúsnæði fyrir fólk – ekki fjárfesta
Lykilþættir almannaþjónustunnar eru öflug félags-, velferðar-, geð- og heilbrigðisþjónusta á samfélagslegum grunni, aðgengi að öruggu húsnæði, jafnrétti til náms og að framfærsla fólks dugi til að lifa heilbrigðu og öruggu lífi.
Barnvænt samfélag
- Börn eiga að lifa við frelsi frá ofbeldi, rasisma, stéttaskiptingu og kvenfyrirlitningu. Aukinn stuðning þarf meðal annars í skólum og fullnægjandi mönnun, bættan aðbúnað og skýrar aðgerðir, tæki, tól og svigrúm til að tryggja slíkt frelsi.
- Vinnum markvisst gegn fátækt barna. Bætum hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram að styrkja barnabótakerfið, með áherslu á einstæða foreldra.
- Klárum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með tímasettri áætlun í samstarfi við sveitarfélögin. Afnema þarf skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og hækka fæðingarstyrk.
- Útrýmum biðlistum í þjónustu við börn þar sem hvorki efnahagur né búseta mega vera hindranir. Styrkja þarf verulega meðferðarúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.
- Tími með okkar nánustu er ein af undirstöðum vellíðunar. Höldum áfram að vinna að því að stytting vinnuvikunnar nái til allra og bætum samspil atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs.
Menntasókn
- Vinna þarf með öllum ráðum gegn stéttaskiptingu í skólakerfinu. Tryggjum gjaldfrjálsan skóla á öllum stigum og jafnrétti til náms. Lögfestum leikskólastigið í áföngum.
- Metum störf kennara að verðleikum. Aukum stuðning við kennara, þ.m.t. íslenskunám innflytjendabarna, og tryggjum þeim mannsæmandi vinnuaðstæður og tryggja jöfnun launa kennaramenntaðra til jafns við almennan markað.
- Styðjum við fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla, ekki síst listnám. Nemendum skal gefinn kostur á að stunda nám í fjarnámi um land allt.
- Eflum grunnrannsóknir enda eru þær undirstaða nýsköpunar og þekkingar. Öflugir og vel fjármagnaðir háskólar spila þar lykilhlutverk, auka þarf framlög svo við náum meðaltali Norðurlanda á háskólastiginu.
- Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt. Það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli og börn af erlendum uppruna.
Mannsæmandi kjör – sanngjörn tekjuöflun
- Tryggjum öfluga almannaþjónustu óháð búsetu og efnahag og rétt almennings til heilnæms umhverfis og aðstæðna. VG hafnar einkavæðingu innviða og almannaþjónustu
- Efla þarf opinbera heilbrigðiskerfið, stytta biðlista og auka geðheilbrigðisþjónustu
- VG hafnar niðurskurðarstefnu í baráttu við verðbólgu. Nauðsynlegt er að uppræta kerfisbundna verðbólguhvata með samstilltu átaki ríkis, Seðlabanka og sveitarfélaga.
- Efnahagsstefnan á að draga úr ójöfnuði, tekjuöflun hins opinbera á að vera sanngjörn og stuðla að samfélagssátt, þannig að hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum. Framfærsla eldra fólks og fólks á örorkulífeyri á aldrei að vera lægri en lágmarkslaun.
- Fjármagnstekjuskattur á að vera þrepaskiptur þannig að stóreignafólk greiði hærra hlutfall heldur en venjulegt fólk af hóflegum sparnaði.
- Stórauka þarf skatteftirlit en skattaundanskot hafa verið metin um 100 milljarðar á hverju ári.
- Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina séu hækkuð.
- Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok, eða ef fólk fer á örorkulífeyri.
Öruggt húsnæði og búsetuskilyrði
- Íbúðarhúsnæði á að vera fyrir fyrir fólk, ekki fjárfesta. Skattaafslættir af sölu aukaíbúða verði þrengdir og gildi fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Settar verði frekari takmarkanir á skammtímaleigu (t.d. Airbnb).
- Nauðsynlegt er að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu á almenning með sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðarleiðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum og með leigubremsu.
- Koma þarf á fót raunverulegu félagslegu eignaíbúðakerfi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar og stórauka þarf framboð á íbúðarhúsnæði um allt land. Auka þarf möguleika ríkisins á að styðja við innviðauppbyggingu samhliða auknu lóðaframboði sveitarfélaga.
- Fyrirkomulag hlutdeildarlána þarf að endurskoða til að tryggja að það nái markmiðum sínum, að gefa tekjulágum, þ.m.t. örorkulífeyrisþegum, kost á því að eignast heimili.
- Umbætur verði gerðar á byggða- og atvinnukerfum ásamt því að tryggt sé að strandveiðar skiptist á réttlátan hátt milli byggða landsins. Tryggt verði að nýtt stuðningskerfi landbúnaðar virki fyrir bændur og fjárfestingarstyrkir og styrkir til nýliða verði auknir.
- Framlög til samgönguáætlunar verði aukin svo að unnt sé að flýta brýnum verkefnum í samgönguáætlun, jarðgangnaáætlun fjármögnuð og staðið við samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu.
- Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu og aðgengi að lyfjum í heimabyggð. Efla þarf heilsugæslu um allt land í að sinna grunnheilbrigðisþjónustu við íbúa.
- Halda þarf áfram að efla þjónustu við eldra fólk og samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu í gegnum verkefnið Gott að eldast.
- Tryggja þarf raforkuöryggi til heimila þannig að heimili séu varin fyrir óhóflegum hækkunum á raforkuverði.
Fjölbreytt samfélag
- Fjölbreytileiki er styrkur hvers samfélags og því á íslenskt samfélag að taka þeim fagnandi sem hingað koma, óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. Vinna þarf að markvissri inngildingu í samfélaginu og valdeflingu jaðarsettra hópa.
- Öllum innflytjendum þarf að vera tryggð íslenskukennsla þeim að kostnaðarlausu, á vinnutíma og án launataps.
- Endurskoða verður skipulag og vinnubrögð Útlendingastofnunar þannig að starfsemi stofnunarinnar taki fullt tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga.
- Fólk á að njóta fullra réttinda í samfélaginu óháð því hvernig það skilgreinir sig.
- Setja þarf skýran laga- og refsiramma um hatursorðræðu og hatursglæpi í garð hinsegin fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, kvenna og annarra hópa.
- Menning og listir eiga að vera aðgengilegar öllum hópum samfélagsins og afnema þarf hindranir sem eru til staðar svo fólk geti notið margs konar menningar.
Tryggjum öllum börnum og ungmennum tækifæri til þess að blómstra, öllum almenningi sómasamleg kjör og fjölskyldum öruggt þak yfir höfuðið.