Stöndum vörð um víðerni Íslands og villta náttúru
Losum minna og bindum meira með skjótum og fjármögnuðum aðgerðum
Tökum sanngjarnt auðlindagjald fyrir þjóðina og höldum orkuauðlindum og orkuinnviðum í almannaeign
Náttúruvernd í forgrunni
- Náttúra Íslands er einstök. Fjölga þarf friðlýstum svæðum þannig að þau þeki a.m.k. 30% landsins og hafsvæðisins fyrir árið 2030 í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
- Koma þarf upp neti þjóðgarða og friðlýstra víðerna sem nær m.a. til miðhálendisins, Breiðafjarðar og hálendis Vestfjarða.
- Landnýtingarstefna Íslands á að byggjast á sjálfbærri nýtingu þar sem vernd og endurheimt vistkerfa spilar stórt hlutverk, þ.m.t. skóglendis og kjarrlendis, mólendis og votlendis.
- Banna á veiðar á hvölum og öðrum sjávarspendýrum í íslenskri lögsögu.
- Bændur eru vörslumenn landsins. Styrkja þarf möguleika þeirra til að byggja afkomu sína á náttúruvernd, t.a.m. með varðveislu og endurheimt landgæða og umsjón friðaðra svæða.
- Koma þarf á heildstæðri lagaumgjörð um lagareldi, fjölga friðuðum svæðum, þ.m.t. Eyjafjörð og Öxarfjörð, setja inn hvata til umhverfisvænni framleiðslu og tímasetja útfösun á eldi í opnum sjókvíum.
- Almenningur, sér í lagi ungt fólk, á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum um umhverfis- og auðlindamál og tryggja þarf réttarstöðu náttúruverndarsamtaka samkvæmt Árósarsamningnum.
Auðlindanýting í sátt við náttúru og samfélag
- Orkuauðlindir og orkuinnviðir eiga að vera í almannaeigu og orkuauðlindir landsins nýttar til að uppfylla almenna orkuþörf landsmanna og í þágu innlendra orkuskipta.
- Greiða ber sanngjarnt gjald af nýtingu auðlinda í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, vindur, sjávarauðlindin eða annað.
- Tryggja ber auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.
- Hafna ber orkuflutningi frá landinu um sæstreng eða sem rafeldsneyti og koma í veg fyrir rafmyntargröft hérlendis.
- Marka þarf skýra stefnu um nýtingu vindorku á landi og á hafi og hvar slík nýting eigi heima. Á landi eiga vindorkuver aðeins heima á þegar röskuðum svæðum.
- Efla þarf nýsköpun sem styður við hringrásarhagkerfið og nota hvata til að draga úr auðlindasóun, auka endurnotkun og endurvinnslu og nýta úrgang frá einu framleiðsluferli sem efnivið í aðra vöru. Draga þarf úr myndun úrgangs með auknum kröfum og stuðningi til framleiðenda.
- Vernda ber gott landbúnaðarland og nauðsynlegt er að nýta það undir sjálfbæra matvælaframleiðslu.
Loftslagsmál og lausnir
- Lögfesta ber sjálfstætt markmið Íslands um 55% samdrátt í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 m.v. 2019, skilgreina markmið um kolefnishlutleysi 2040, setja heildræna loftslagsstefnu, flýta aðgerðum og grípa til frekari ráðstafana til að ná markmiðum, s.s. auka fjárveitingar til loftslagsaðgerða í áföngum upp í 4% af landsframleiðslu.
- Ísland þarf að sýna forystu í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllum geirum. Vinna þarf sérstaklega tímasetta og fjármagnaða áætlun um samdrátt í losun og aukna bindingu vegna landnotkunar, um útfösun á jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040 og orkuskiptum í samgöngum, þungaflutningum, sjávarútvegi, landbúnaði og byggingariðnaði. Skoða ætti kosti þess að banna auglýsingar á jarðefnaeldsneyti.
- Auka þarf fjárframlög til alþjóðlegra loftslagsaðgerða, m.a. í gegnum Adaptation Fund og GCF.
- Gera ætti grænþvott refsiverðan að lögum og draga þarf úr losun vegna framleiðslu og neyslu á vörum og styðja enn frekar við nýsköpun og tæknilausnir í baráttunni við loftslagsvána, svo sem vegna kolefnisföngunar og förgunar.
- Draga þarf úr neysludrifinni losun Íslands um 45% fyrir árið 2030.
- Innleiða þarf mengunarbótaregluna í alla stefnumótun þannig að þau sem menga borgi.
- Hraða þarf uppbyggingu göngu- og hjólastíga. Setja þarf lög um almenningssamgöngur, tryggja orkuskipti þeirra, efla þær um allt land og tryggja að þær séu aðgengilegar hreyfihömluðu fólki. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu eins og kostur er og efla Strætó tafarlaust með stuðningi ríkisins. Grænni tengingu milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar þarf að forgangsraða.
- Öll matvælaframleiðsla á Íslandi á að verða kolefnishlutlaus árið 2040 og stuðla að bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Matvælaframleiðsla á Íslandi á að tryggja fæðu- og matvælaöryggi landsmanna ásamt því að vera í fremstu röð í framleiðslu umhverfisvænna og heilsueflandi matvæla.
- Neyðarástand hefur víða komið upp vegna loftslagsmála. Kanna þarf kosti þess að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.
Aðgerðir í náttúruvernd og loftslagsmálum verða að vera róttækar, tryggja þarf réttlát umskipti og styðja þarf við þróun kolefnishlutlauss hringrásarhagkerfis.