Stöndum með frjálsri Palestínu
Segjum stopp við harkalegri og ómannúðlegri stefnu gegn fólki á flótta
Félagslegt réttlæti stuðlar að friðsömu og mannvænu samfélagi
- Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Stríðum lýkur ekki með orrustum heldur friðarsamningum.
- Utanríkisstefna Íslands þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir deilumála og fordæmum hvers kyns árásarstríð og ofbeldi í samskiptum þjóða.
- Við eigum að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða, og afgreiðsla umsókna á að vera skjót og fagleg.
- Barnasáttmálinn skal alltaf hafður að leiðarljósi í málum barna á flótta.
- Við krefjumst tafarlauss vopnahlés í Palestínu, friðarsamninga og að vopnaflutningar til Ísrael verði stöðvaðir.
- Við viljum beita okkur fyrir því að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum verði komið á gagnvart Ísrael vegna framgöngu Ísraelshers í Palestínu.
- Stjórnvöld eiga að styðja við málsókn Suður-Afríku hjá Alþjóðadómstóli Sameinuðu þjóðanna gegn Ísrael fyrir þjóðarmorð á Gaza og beita sér fyrir því með virkum hætti að draga ísraelsk stjórnvöld til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi, mannréttindabrot og landrán.
- Mikilvægt er að vinna gegn ofbeldi og vopnaburði í samfélaginu en almennur vopnaburður lögreglu er ekki til þess fallin að auka traust eða öryggi almennra borgara.
- Tryggja þarf starfsöryggi lögreglunnar með betri ráðstöfun fjármagns, aukinni nýliðun og mannsæmandi starfsaðstæðum frekar en vopnum. Langstærstur hluti þeirra sem brjóta af sér gera það vegna félagslegra, fjárhagslegra eða andlegra erfiðleika og ætti frekar að verja kröftum í að takast á við þau vandamál.
Beitum okkur fyrir friðsamlegum lausnum, mannréttindum og lýðræði.